Svör við algengum spurningum


Hvað er Virk vefmæling?

Virk vefmæling er skrásett vöruheiti í eigu Modernus ehf. Það er heiti á gagnvirkum hugbúnaði, sem er sérhannaður til þess að mæla og skrásetja nákvæmlega notkun og hegðun á vefsetrum. Virk vefmæling er hugbúnaður, sem gefur réttar upplýsingar um það hversu margir heimsækja vefinn, hve lengi þeir dvelja á honum, hvaða síður gestirnir lesa og hvaðan þeir koma svo nokkuð sé nefnt. Hugbúnaðurinn skráir í gagnagrunn, reiknar út, flokkar og birtir á grafískan hátt og í töflum 26 mismunandi upplýsingar um hverja einustu heimsókn inn á vefinn. Að auki fylgist hugbúnaðurinn með ástandi vefsins með því að mæla viðbragð eða “svartíma”,“uppi-tíma” og “virkni” gagnvart notendum - frá notendum séð. Þess vegna nefndum við hugbúnaðinn “Virka vefmælingu.”

Hvað er Samræmd vefmæling?

Samræmd vefmæling er heiti á lista yfir mest sóttu vefi landsins. Vefmæling með samræmdu sniði felst í því að mæla netumferðina á mörgum vefsetrum samtímis með samræmdum hætti og birta niðurstöðurnar á þar til gerðurm lista. "Samræmd vefmæling" er skráð vöruheiti í eigu Modernus ehf. og tengist beint notkun á hugbúnaðinum Virkri vefmælingu. Ekki er gert ráð fyrir því að allir notendur Virkrar vefmælingar verði nokkurn tíma þátttakendur í Samræmdri vefmælingu.

Hvað þýðir orðið fletting?

Fletting, sbr. að fletta síðu í bók. (e. Page Impressions)

Virk vefmæling sklgreininir flettingar þannig: 1 fletting = hver einstök tenging vefrápara við vefþjón. Fletting verður þá fyrst til, þegar vefrápari biður um síðu og viðkomandi síða nær að hlaðast öll inn. M.ö.o., fjöldi síðuflettinga = fjöldi virkra tenginga (fjöldi "get" fyrirspurna). Ólíkt netþjónsteljurum (e. logfile analyzer) getur Virk vefmæling mælt notkun þótt síðan sé vistuð í flýtiminni (e. cache) vefráparans eða á "proxy" netþjón. Vegna þessa m.a., staðhæfum við að niðurstöður mælinga hjá Virkri vefmælingu verði ávallt réttari en upplýsingar frá "log-file" teljurum.

Hvað er innlit?

Innlit, sbr. að líta inn, líta í heimsókn. Orðið finnst ekki í íslenskum orðabókum. (e. User Sessions)

Virk vefmæling skilgreinir innlit á eftirfarandi hátt: Þegar notandi kemur inn á vef sem er með mælikóða frá Virkri vefmælingu í fyrsta skipti telst það vera eitt innlit. Ef sami notandi kemur inn á sama vef innan 30 mín. telst það vera sama innlit. Komi sami notandi inn á sama vef eftir að 30 mín. eru liðnar frá síðustu flettingu þá telst það vera nýtt innlit. Þ.a.l. getur eitt innlit tæknilega séð staðið yfir endalaust, svo framarlega sem aldrei líði meira en 30 mín. á milli síðuflettinga. Heimsóknir á aðra vefi hefur ekki áhrif á innlitið, einungis tíminn á milli síðuflettinga á þennan ákveðna vef.

Orðið innlit finnst ekki í orðabók Menningarsjóðs frá 1983 né heldur í orðabók Máls og menningar 1994. Modernus heyrði orðið fyrst notað í þessu samhengi hjá Sigríði Andersen lögfr. Verslunarráðs Íslands og tók það fljótlega upp á sína arma.

Hvernig er orðið gestur skilgreint?

Gestafjöldi (fjöldi notendafjölda) á dag. (e. daily unique visitors)

Við tölum og skrifum frekar um daglegan og vikulegan notendafjölda. Hver "gestur" (þ.e. notandi) fær eitt innlitsnúmer (köku) sem er geymt út líðandi sólarhring (þ.e. allt að 24 klst). Endurtekin innlit frá sama notanda eru ekki talin aftur fyrir en nýr dagur rennur upp. Með þessu móti fást nokkuð áreiðanlegar upplýsingar um notendafjölda vefjarins á dag. Fjöldann er þó ekki hægt að mæla nákvæmlega því ekki er vitað hversu margir, né heldur hverjir, "leynast" á bak við skjáinn! Lesið næst um notendafjölda á mánuði.

Virk Vefmæling – Samræmd Vefmæling hver er munurinn?

Virk vefmæling er nafnið á hugbúnaði Modernus, sem fyrirtæki og stofnanir nota til þess að mæla notkunina á vefnum, gefa upp tæknilegar upplýsingar um gestina, og mæla ástand og uppitíma vefsins. Samræmd vefmæling er aftur á móti heiti á opinberri birtingu upplýsinga yfir mest sóttu vefi landsins í samstarfi við Verslunarráð Íslands. Þeir vefir, sem birta upplýsingar um umferð hjá Samræmdri vefmælingu eiga það sameiginlegt að vera allir mældir með hugbúnaðinum Virkri vefmælingu og að hafa undirgengist ákveðnar reglur varðandi uppsetningu á kerfinu. Modernus meðhöndlar alla vefi í Samræmdri vefmælingu í sérstökum gagnagrunnshópi. Aðeins hluti notenda Virkara vefmælingar hefur áhuga á, eða á erindi í Samræmda vefmælingu.

Hvernig nálgast maður teljarakóðann?

Notendur Virkrar vefmælingar fá sérmerktan kóða sendan í textaskjali með tölvupóst. Þeir sem stofna frían teljara fá almennan, ómerktan kóða sendan sjálfvirkt í tölvupósti.

Einnig er hægt að nálgast teljarakóðann með því að skrá sig inn á innskráningarsíðunni, velja "Stillingar" í þjónustuflipanum efst á síðunni og fara þar í "Virk vefmæling" og svo "Mælikóði Modernus".

Hvað er kóði og til hvers er hann?

Þegar við tölum um “kóðann”, þá meinum “javascript” kóðann, sem við sendum notendum til þess að setja inn á vefsíðurnar. Kóðann er nauðsynlegt er að setja inn í öll html/asp - skjöl sem á að mæla og merkja hann með síðunafni til þess að hugbúnaðurinn geti greint umferðina á vefnum niður á einstakar síður vefsins.

Trufla leitarvélar mælinguna?

Nei.

Heimsóknir frá sjálfvirkum leitarforritum (e. bots/spiders) eru ekki taldar í Virkri vefmælingu og hafa því engin áhrif á tölurnar. Eftir sem áður er fylgst með tilvísunum frá leitarvélum og leitarorðum sem notendur leita að til að finna síðuna.

Er hægt að útiloka talningar frá einstökum ip-tölum?

Virk vefmæling býður upp á þennan möguleika. Til þess að virkja hann er farið í "Stillingar" í þjónustuflipanum efst á síðunni og fara þar í "Virk vefmæling" og þar undir velur maður “IP-útilokanir” og setur inn þær ip-tölur sem ekki á að taka með birtingum á niðurstöðum mælinga.

Sjálfvirkar tölvupóstsendingar – hvað er það?

Forritið Virk vefmæling sendir lykilupplýsingar til forsvarsmanna vefsins beint úr gagnagrunninum með sjálfvirkum hætti. Aðeins þarf að skrá inn netföngin, sem senda á upplýsingarnar til. Viðtakendurnir fá síðan tölvupóst að morgni hvers dags, með lykiltölum um notkunina á vefsetrinu daginn áður. Einnig er hægt að fá vikulegar og mánaðarlegar skýrslur.

Hægt er að stilla hvaða upplýsingar koma fram í skýrslum sem notandi er skráður fyrir. Þá er farið í "Stillingar" í þjónustuflipanum efst á síðunni og fara þar í "Mínar stillingar" og þar undir "Breyta sniðmáti á skýrslum".

Hver er munurinn á Virkri vefmælingu og “log-file” teljurum?

Munurinn er heilmikill! Í stuttu máli er hann þessi: Virk vefmæling er “vafratengt mælitæki” og sem slíkt í sambandi við netvafra notenda vefsins. Það gerir okkur t.d. kleift að skrá gesti sem koma frá svonefndum proxy þjónum og líka þá sem vistað hafa síðuna í flýtiminni vafrans, ólíkt netþjóns (logfile) teljurum. Virk vefmæling notar ekki skrár (e. log) frá netþjónum og er ekki “hugbúnaðarpakki” sem vefirnir kaupa og reka sjálfir. Virk vefmæling er miðlægur gagnagrunnur, sem vefirnir kaupa sér aðgang að til þess að mæla umferðina um vefinn á óhlutdrægan hátt út frá notendum séð. Skráðir notendur hafa beinan aðgang að nýjustu upplýsingum um notkun og ástand vefsins á öllum tímum og enga sérstaka tækniþekkingu þarf til þess að umgangast hugbúnaðinn.

Hver er munurinn á "daglegum notendum" og "vikulegum notendum"?

Vikulegir notendur sýna fjöldann á viku en daglegir notendur sýna fjöldann á dag. Mælingin er einkvæm, sem þýðir að hver tölva er aðeins talinn einu sinni í viku eða einu sinni á dag. Súla hvers dags sýnir eingöngu þá sem ekki höfðu notað vefinn áður í vikunni.

Athugið: Vikulegir notendur eru jafnframt fjöldinn sem Modernus birtir á lista Samræmdrar vefmælingar®, ef um birtingu er að ræða.